31 ágúst, 2006

Guðný Moss

Hakone er lítið sætt þorp við rætur Fuji-fjalls hér rétt vestan Tókýó. Þetta er túristamekka, enda gullfallegur staður og margt að skoða.


Við Bea skruppum þangað í smá viðskiptaferð í maí.

Það er nýbúið að setja upp vefsíðu fyrir þetta svæði og þar er margt sem laðar...
Kíkið - kíkið!

Ps: Ég læt kókið alveg í friði - ég lofa!

28 ágúst, 2006

Djóshúa

Þeir eru fáir jafntöfrandi og Jóshúa Lúis!
Hann er það töfrandi að ég ætla að leyfa mér að birta hér póst númer tvö um hann.

Ég veit ekki alveg hvurnig ég vafraði inn á þetta á Túbunni, en... mér þykir þetta ógurlega skemmtilegt.

Hvurnig fer nokkur dómnefnd að því að velja mesta leiksigurinn?

Thorsten fer svo blíðlega með línuna "I love you" að ég kikna í hnjáliðunum.

Hárgreiðsla Antóní í byrjunarklippunni er alveg óttaleg. Hann sýnir jú mikla angist í spjalli við eitthvað grey í "kóma" og á svosum sigurinn skyldan.

Í klippu númer þrjú veit ég ekki hvort á sigurinn meir verðskuldaðan: Smjörgreiðsla latínóloversins eða sakleysislegt undrandi augnaráð hins gæjans?

Fjórðu tilnefninguna hlýtur minn maður, Jóshúa Lúis og ji dúddamía - hvílíkur leiksigur! "Or... you can GROW UP AND BECOME A-A-A-A MAN!!!"

Félagi Jóshúa úr Leiðarljósi, Alan Spolldíng sýnir að lokum afburðarframmistöðu með klassísku "NEVER, NEVER, NEVE-E-E-ER!" Pæng, pæng!

Undirspilið þegar vinningshafinn gengur að sviðinu er líka stórkostleg, sem og öskur æstra kvenkynssápuaðdáenda.

Njótið :)

23 ágúst, 2006

Fúdjí

Stolt lífs míns hefur verið endurskoðað og endurbætt.
Ég kleif Fuji-fjall síðustu helgi í góðra vina hópi. Við fórum sjö af stað úr borginni, tjölduðum við vatn undir fjallinu, grilluðum og söfnuðum kröftum fyrir hið mikla klifur. Ég var á öllum áttum með þetta og í byrjun aldeilis ekki viss um að ég myndi láta mig hafa þetta. Við Berglind kíktum aðeins á þennan hól úr sveitinni um daginn og mér leist nú ekki á blikuna. Þetta er fjári hár hóll! Ég þrjóskaðist nú til en aðeins fimm okkar enduðum á toppi fjallsins.
Fjujifjall er rómaðasta tákn Japans, 3776 metra hátt eldfjall, nærri því symmetrískt. Það er ofsalega fallegt, sérstaklega á haustin og veturna þegar toppur þess er hulinn snjó. Þá er það að sjálfsögðu óklífanlegt.
Við hófum prílið rúmlega sjö að kvöldi til, útbúin góðum skóm, orkugeli (ógeðslegt á bragðið), Snickers (namminamm), hlýjum fatnaði, þunnum fatnaði, vasaljósum og súrefniskútum.
Við gengum alla nóttina undir stjörnubjörtum himni og sáum þónokkrar halastjörnur. Þetta var ótrúlegt allt saman. Við vorum líka dugleg að taka okkur langar pásur inn á milli því við vildum jú njóta þessa klifurs og ekki líða út af sökum súrefnisskorts, en við vorum nú öll mjög hraust.
Við rétt náðum upp í tæka tíð til að horfa á sólarupprásina og það var ólýsanleg tilfinning að standa þarna a þessum magnaða hól, langt yfir skýjunum, dauðþreytt en glaðvakandi um leið.
Þessi lífsreynsla gleymist aldrei.
Svo var líka svo skemmtileg uppákoma á toppnum - Tveir íslendinganna trúlofuðust á toppnum. Það kom tilvonandi brúðinni alveg á óvart. Svaka gaman - svaka rómanz!

Ég er algjörlega á móti svona "check-túrisma" en í þetta sinn er ég í fyrsta sinn sammála að þetta sé eitthvað sem maður verður bara að gera, hvort sem maður njóti þess eða ekki - og gera það svo ALDREI aftur!

Mig verkjar enn í dag í alla vöðva í leggjunum, meira segja á maganum og ég er ekki frá því aðeins í höndunum. Það eru því rólegir dagar framundan hjá mér. Ég er byrjuð að kanna viðfangsefni á netinu sem ég ætla að kynna fyrir prófessor Mizuno í byrjun næsta mánaðar og þess inn á milli leyfi ég mér einn og einn þátt af Aðþrengdum eiginkonum sem Auður var svo elskuleg að senda mér.

Húbbsellíhú og knús til allra heima.

Ps: Eitthvað er netið hérna á heimavistinni að veita mér endalausan óunað þessa dagana. Ég get ekki hlaðið inn neinni mynd á bloggið mitt lengur. Þekkir einhver þetta vandamál? Hvað skal gjöra? Er þó búin að setja þær allar inn á myndasíðuna

08 ágúst, 2006

Ást, áreitni, ákeyrsla - hárgreiðsla

Berglind er hér í heimsókn hjá mér.
Ýmislegt hefur á daga okkar drifið þá rúmu viku sem hún hefur dvalið í tækniborginni. Það tekur þó ekki að nefna allt, en í kvöld áttum við stórskemmtilegar - stóráhugaverðar stundir.
Skyndihugdetta greip okkur.
Við skunduðum inn á hárgreiðslustofu og létum raka af okkur hárið! Það eru svo gasalega flottar hárkollubúðir hér í Tókýó - um að gera að nýta sér þær.
Nei... við létum bara klippa/perma okkur.
Berglind var meðhöndluð af listamanni. Hann varði drjúgum tíma í að ákveða hárgreiðslu dömunnar og klippti hana á póst-módernískan hátt.
Ég hins vegar fékk Viktoríansk-tímabils krullukoll.
Berglind fékk mikið og gott nudd af höndum drengs með bleikt fax og gott fas.
Ég fékk geimskip sem sveimaði um hausinn á mér á meðan hárið permaðist.
Báðar töldum við okkur hafa snortið hjörtu myndarlegra klippidrengja okkar. Þeir hlógu mikið að hnyttnum athugasemdum mínum um geimskip og Star Trek. Japönsku húðflúrin hennar Berglindar fengu líka ómælda athygli - meira að segja komu klippidrengir víðs vegar að úr klippistofunni til að berja þau augum.
Líklegast verður þetta nánasta stund okkar með japönskum drengjum og mun hún seint gleymast. Ást - ást - ást.

Með nýjar hárgreiðslur töltum við á Kúbans-stemmningar-barinn hinum megin við götuna og fengum okkur dýrindiskvöldverð - enda sæmdi annað ekki hárfögrum dömum eins og okkur. Þar var nú Adam ekki lengi í Paradís (Berglind staðhæfir að þetta orðatiltæki sé til...) .
Hárgreiðslur okkar löðuðu að þessa þvílíku bleiknefja bresku dóna. Þeir voru pottþétt að koma beint af Ibiza, eða Pravda... ekki alveg vissar. Við ætlum ekki að tíunda dónalegheitin hér og látum nægja að segja hvernig við kenndum honum (að hans bón) hvernig segja skyldi við yfirmann sinn "Ég kem ekki í vinnuna á morgun". Það var að sjálfsögðu, á góðri íslensku: "Ég er hálfviti". Við létum okkur fljótt hverfa.
Áreitni - áreitni - áreitni.

Með þessar glæsilegu greiðslur héldum við út í ljósadýrðina í Shibuya. Svona rosalega vorum við ánægðar með kollana á okkur að við gleymdum... eða Berglind gleymdi, að fylgjast með hvert við vorum að fara. Til að gera langa sögu stutta (því það gerðist heilmikið á örfáum sekúndum) lenti Berglind fyrir hjóli! Japanskur hjólreiðakappi keyrði hana niður - bókstaflega. Nú skartar hún ekki aðeins stórglæsilegri hárgreiðslu heldur gullfallegu og hjartalaga mari á hægri hlið líkamans (í Japan kemur umferðin einmitt frá hægri - en greinilega er það of flókið fyrir litla stúlku úr vestfirsku sjávarplássi!!!)

Innskot frá Berglind: Það hjálpaði ekki að þaulvana borgarbarnið beinir athygli saklausu sveitastúlkunnar (sem var mjög mikið að einbeita sér að umferðinni) að stóru auglýsingaskilti um leið og labbað er að stórhættulegu umferðargötunni. Maður spyr sig ...hver ber ábyrgðina!!!!!
Innskot endar.

Semsagt: Krass - Búmm - Bamm

Kveðjum að sinni, Pönkarinn og Barónessan.