13 desember, 2007

13. desember - Apríkósan

Varðandi ritlu (takk Auður fyrir flotta þýðingu) gærdagsins vil ég leiðrétta tvíþættan misskilning: Nei, það var ekki ég sem var slegin og nei, það var ekki prófessorinn minn (Íþróttaskórinn) sem var svona ofbeldisfullur.

Þetta var í tíma okkar allra, fyrsta árs nema iðnaðarverkfræðideildarinnar, um fimmtíu talsins.

Yu, kínverskur nemandi, sat fremst og las dagblað á meðan aðrir nemendur héldu fyrirlestur. Rétt áður en Mo, annar kínverskur nemandi hóf sinn fyrirlestur, gekk prófessorinn - köllum hann Apríkósugróðurhúsið (bein þýðing) fram fyrir allan bekkinn, hallaði sér fram á borðið hans Yu, þannig að allir störðu, og sagði honum að það væri bannað að lesa dagblað í tíma og...

BAMMM!!!

Ég gjörsamlega missti andlitið. Það sauð á mér og það fyrsta sem ég vildi gera var að grípa töskuna mína og strunsa út. En, ég sá ekki fyrir mér að þess lags mótmæli myndu skila sér rétt, svo ég var gunga og sat áfram. Greyið Mo (sem er vinkona Yu) þurfti svo að byrja fyrirlesturinn sinn meðan skellurinn bergmálaði enn í eyrum okkar allra.

Í dag fór ég hins vegar á fund við yfirmann deildarinnar, prófessor Garn, og klagaði þetta. Hans fyrstu viðbrögð voru að segja "Þetta er gömul japönsk hefð". Prófessor Garn er í raun mjög ljúfur karl, en ég sá á honum að hann var ekki alveg að skilja að ég væri að meina, svo ég spurði "Viðgengst þetta þá hér í þessari stofnun?" Hann svaraði því að þetta væri jú bannað, en...

"En...?" sagði ég. Við ræddum þetta fram og til baka og ég gerði honum grein fyrir því að mér þætti þetta algjörlega óásættanlegt og vænti þess að prófessorar í svo merkri menntastofnun hefðu betri hemil á skapi sínu en svo að þeir beittu leikskólabarnaaðferðum við að útkljá deiluefni. Mér þætti eðlilegri refsing að vísa nemandanum úr tíma eða að lækka einkunn hans -eða eitthvað á þá leiðina.

Að lokum sagðist prófessor Garn ætla að áminna prófessor Apríkósugróðurhús. En ég verð að viðurkenna að ég býst ekki við því að Apríkósan muni þurfa að taka afleiðingum gjörða sinna. Því miður.

En, hvað um það... nú eru jólin alveg að koma og mig langar miklu frekar að hlakka til þeirra en að pirrast yfir japönsku óréttlæti.

Í dag hefði Guðný amma mín orðið 82 ára og ég ætla því að spila fyrir ykkur fallega jólalagið "Hamingjusöm jól - Stríð er yfirstaðið".

2 Comments:

Blogger Hildur said...

Japanir eru sko heppnir að hafa eina Önnu hjá sér sem lætur sko ekkert viðgangast sem er missrétti. Líst vel á þig svona á að gera þetta þó svo að það verði kannski ekkert gert í þessu þá ert þú allaveganna búin að koma þínu fram....... ertu ekki byrjuð að pakka í töskur? Tel niður dagana :) Hei já ég er í fríi milli jól og nýárs þannig að ef þú vilt fá heimsókn á morgnanna í morgunkaffi eða lunch (þessa tvo daga hahahha) þá er ég til.

Kveðja frá hálkunni í Reykjavík.

8:34 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Tótallí vil fá morgunheimsókn :) Hlakka svo til að fá mína búsom.

9:32 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home