10 apríl, 2006

Klósettið Tóti

Ég er í teknólógívímu!

Fína herberginu mínu fylgdu fjölmörg tól og tæki. Ég hef verið að lesa mér til í þykkum leiðbeiningabæklingnum sem mér var færður ásamt stafrænum lyklinum að útidyrunum mínum. Ég hef sett mig í stellingar og reyni eftir mætti að stilla mig inn í þetta rafræna líf.

Ég náði að koma símanum mínum í þvílíkt uppnám bara við það að reyna að lesa inn kveðju á símsvarann. Síminn fór í svo mikla fýlu að hann neitaði að gegna öllum mínum skipunum. Skjárinn sýndi bara Error og ég varð að kalla til aðstoð. Hann hefur nú verið siðaður til, en ég veit ekki hvort ég þori að reyna að setja kveðjuna inn aftur.

Litla eldhúsið mitt mætti víst nota til hinnar fínustu eldamennsku, þó ég hafi nú einungis snert á örbylgjuofninum. Kannski það passi bara Tókýó-Guðnýju að læra loksins einhverja eldhústakta.

Uppáhaldstólið mitt í íbúðinni er án efa klósettið Toto.



Þó svo ég hafi miklar mætur á hljómsveitinni Toto er það ekki ástæðan að baki nafninu heldur er það vörumerkið. Toto yrði líklegast þýtt á íslensku sem Tóti en ég vil auðvitað ekki móðga minn elskulega bróður með að kalla klósett eftir honum, en þegar tekið er tillit til tæknivæðingar hins japanska Tóta held ég að hinn íslenski myndi stoltur kalla sig Tóta.




Minn japanski Tóti er með takkaborði. Eins og Indverjar hafa Japanir sprautubyssur í klósettum sínum. En, japönsk sprautubyssa sprautar volgu vatni. Og það sem meira er þá er japönsk Tótaseta upphituð. Já, þið lásuð rétt - ég á upphitaða klósettsetu!!!

Lýsingin er þó engan vegin búin því sprauturnar hafa mismunandi styrk frá gutli upp í túrbósprautu. Síðan stillir sprautan sig eftir því hvort um er að ræða “númer eitt” eða “tvö” og báðum stillingum fylgir sá möguleiki að hafa sprautið bylgjukennt.




Eini takkinn sem ég skil ekki á Tóta er "Maintainence-takkinn". Ég hugsa að ef bilun kemur upp í öllu Tótatakkaflóðinu geti ég látið Tóta um að gera við sig sjálfan...?

Að sjálfsögðu er hægt að sturta niður, en sturta-niður-Tótatakkinn er einstaklega léttur og sömuleiðis lokið sem fer sjálfkrafa niður, hægt og rólega svo það skelli ekki.

Þó verð ég að velta því fyrir mér að klósett með öllum þessum tækniundrum verði að fylgja eftirfarandi leiðbeiningum:




Ég verð að segja að sú manneskja sem getur ráðið við takkaflóð Tóta hlýtur að hafa það vit í kollinum að gera ekki þarfir sínar á klósettlokið!!!

7 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

hehehehehe...hvernig verður þetta eiginlega þegar þú kemur heim!!! Þú þarft að taka eitt svona með þér...okkar klósett hérna á fróni er rosalega sveitó!!!!!;)

5:59 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Finnst þetta klósett snilld. Verð að fá það heim til mín!

12:23 f.h.  
Blogger Fjola said...

Ótrúlegt en satt Guðný þá er klósettið þitt eiginlega alveg eins og það sem ég sá á Skjáeinum um daginn og ég sagði þér frá ... kosta víst ekki nema 95þúsund á Íslandi ... þú kannski flytur eitt svona heim handa mér? ;)

5:15 f.h.  
Blogger Nielsen said...

Nítíuogfimmþúsund!
Ég skal bara komast að því hvað þau kosta hér.
Kannski maður geti bara grætt??

11:01 f.h.  
Blogger Rikey Huld said...

Þetta er greinilega snilldarklósett - en er enginn svona selfcleaning takki á þessu takkaóðaklósetti?

6:02 e.h.  
Blogger Nielsen said...

Hélt fyrst að "maintainence takkinn" væri fyrir sjálfþrif, en ég þori bara ekki að ýta á hann. Er hfædd um að þá fari bara einhver alarm í gang og það þjóti upp til mín einhver lítill kall með drullusokk :/

8:22 e.h.  
Blogger sylvia said...

Góð buissness hugmynd!!! Guðný er ekki fyrr komin til Japans og þegar farin að sigra heiminn. Þú verður í sögubókunum undir kaflaheitinu Klósettvæðingin.

8:23 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home