22 febrúar, 2007

Riddari götunnar

Í Tókýóborg er riddari götunnar vopnaður appelsínugulu ljósasverði eins og Jedi úr Star Wars. Hann er líka í svakalega smart vesti sem er ýmist endurskinsgrænt, appelsínugult eða hvítt. Ég hugsa að það hafi eitthvað að gera með stöðu hans - hvaða vestistýpu hann klæðist.
Flottustu vestin hafa innbyggð blikkljós, svona til þess að greina þá, svo ekki sé um villst, frá venjulegum vegfarendum götunnar.
Hann sinnir stórhættulegu starfi og því er hjálmur brýn nauðsyn. Vel skræk flauta er sömuleiðis ómissandi.



Starf riddarans er margvíslegt.

Hvar sem göngubraut má finna - riddarinn er ekki fjarri. Hvar sem gamla konu með göngugrind má finna – riddarinn kemur askvaðandi. Þar sem skólabörn þurfa yfir götu – riddarinn er reiðubúinn!

Mesta þörfin fyrir riddarann er við vegaframkvæmdir. Þar verndar riddarinn grunlausa borgarbúa fyrir stórhættunni sem leynist á slíkum stöðum. Holan í veginum er vel afgirt með viðar-hindrunum og skreytt litskrúðugum flöggum svo ógerlegt er að taka ekki eftir henni.

En... bara svona til vara er RIDDARINN ekki fjarri.


Í töluverðri fjarlægð geri ég mér grein fyrir vegaframkvæmdunum framundan, skrækt flaut riddarans er ótvíræð sönnun þess. Ég reyni eftir mesta mætti að finna leið yfir götuna, aðra en þá sem er á yfirráðasvæði riddarans. Ég klýf mannmergðina ekki frekar en fyrri daginn og berst að lokum með henni í átt til blikkljósa og flauts.

Ég hasta mér og vona að ég veki ekki athygli riddarans og þar af leiðandi hans óendanlegu umhyggju fyrir öryggi mínu því ég er jú útlendingur og allsófær um að gera mér grein fyrir þeirri stórhættu sem fylgir japönskum vegaframkvæmdum.

Allt kemur fyrir ekki! Hann kemur auga á mig, blæs af tvöföldum krafti í flautuna með hverju skrefinu sem hann stígur í átt til mín. Ég - orðin vel sjóuð í því að sýna þakklæti af mikilli auðmýki, beygi mig aftur og aftur og endurtek arígató arígató – og fylgi handahreyfingum riddarans stóran radíus í kringum framkvæmdirnar.

Óhult held ég svo leið mína og riddarinn stendur eftir, stoltur sem aldrei fyrr.



6 Comments:

Blogger Rikey Huld said...

Gott að vita að þú riddarinn heldur verndarhendi yfir þér:)

8:21 e.h.  
Blogger Rikey Huld said...

Það vantaði aðeins inn í síðasta komment, átti að vera svona:

Gott að vita að þú óhult þarna í stórborginni og að riddarinn heldur verndarhendi yfir þér:)

Jæja þarna tókst mér að skrifa allt kommentið án þess að ruglast, greinilega mikill mánudagur í mér í dag;)

8:23 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

já riddarar birtast sko í ýmsum myndum...og ekki alltaf á hvítum hestum skal ég segja þér!!!!!!:)

11:01 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Vildi að við hefðum svona riddara í fínu vestunum með flottu flautuna til að vernda okkur hérna á Íslandi fyrir öllum þeim hættum sem við búum við vegna vegaframkvæmda í dag!

kv. HH

11:02 e.h.  
Blogger sylvia said...

Nú er það orðið nokkuð ljóst hvað hljómsveitina YMCA vantaði....

4:10 f.h.  
Blogger sylvia said...

sorry meinti Village People...

4:11 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home