15 apríl, 2006

Draumur um geisju-talent

Á heimavistinni bjóðast svokallaðar Calligraphy kennslustundir. Þar lærir maður að rita japönsk tákn, svokallað Kanji. Okkur Beu þótti upplagt að skrá okkur í þessa tíma til þess að ná sem bestum árangri í tungumálinu.

Í dag var fyrsti tíminn.

Kanji-ið kenna tvær japanskar krúttibollur, herra Chino og herra Tanaka.

Með breitt bros fylgdi herra Chino okkur að borði þar sem pappír, bleki og penslum af öllum stærðum og gerðum hafði verið stillt upp fyrir okkur. Ég settist, fullviss þess að nú myndi listamaðurinn í mér brjótast út og brátt næði ég stórkostlegum tökum á Kanji-ritun, líkt og japönsk geisja.

Mér gerðist fljótt ljóst að við Bea vorum einu byrjendurnir. Um alla stofu var fólk af hinu ýmsa þjóðerni með pensla á lofti og ritaði hvert táknið á fætur öðru með miklum listamannstöktum. Ég lét þetta ekki á mig fá þó svo að herra Tanaka hafi aðeins treyst mér fyrir ritæfingu sem fólst í þremur strikum, láréttum annars vegar og lóðréttum hins vegar.

Tíminn leið og ég vandaði mig við strikin mín og vonaði í hvert sinn sem þeir Tanaka og Chino gengu framhjá borðinu mínu að þeir myndu fela mér meira áskorandi verkefni. Þess í stað voru þeir sífellt að minna mig á að sitja bein, hafa vinstri hönd á borðinu og halda penslinum lóðrétt með þeirri hægri. Ég reyndi eins og ég gat að gera allt þetta samtímis og ég vandaði mig við strikin mín, láréttu og lóðréttu.

Eitthvað var ég greinilega að misskilja útskýringar herra Tanaka sem stóð lengi hjá mér og sýndi mér hvernig strikin skyldu rituð. Ég endurtók strikin fyrir hann aftur og aftur en aldrei virtist ég gera þau rétt! Af og til náði ég að gera nokkur fín og þá hrósaði hann mér yfir sig ánægður. Hann hélt brosinu og virtist búa yfir óþrjótandi þolinmæði, en eftir dágóða stund var ég farin að hálfskammast mín því slakir taktar mínir voru farnir að vekja nokkra athygli meðal samnemenda minna. Bea sat við hliðina á mér og dró hvert fullkomið strikið á fætur öðru.

Tveimur og hálfum tíma síðar - og fleiri þúsundum strikum sömuleiðis - var kennslustundinni lokið. Nemendur gengu að vöskunum og tóku til við að þrífa græjurnar sínar. Ég var síðust í röðinni með bleksvarta fingur og útataðan pensil.

Auðvitað þurfti að beita ákveðinni tækni við að þrífa pensilinn og blekbakkan og ég náði ekki frekar tökum á henni en rituninni. Ég held ég hafi subbað vaskinn meira út en ég náði að þrífa græjurnar mínar. Ég skvetti blekvatni ÚT UM ALLT og Bea greyið hjálpaði mér við að þrífa sletturnar af vegginum og gólfinu þegar hún var búin og allir hinir nemendurnir farnir.

Að lokum... hér er afrakstur tveggja og hálfs klukkutíma æfingar við ritun þriggja strika, láréttra og lóðréttra:

6 Comments:

Blogger sylvia said...

Þetta minnir mig nú bara á gamlar stundir í myndmennt. Kennarinn minn var ekki með jafn mikla þolinmæði og þinn og endaði alltaf tíminn á að hún teiknaði myndina fyrir mig;)

Ég verð nú að segja að mér finnst strikin mjög elegant (ef maður lítur framhjá klessunum í kring ;)

10:53 e.h.  
Blogger Nielsen said...

Takk takk :/
Ég sleppti því þó að minnast á það þegar þeir létu mig "taka í gegn" - já með svona gegnsæju blaði yfir strikin sem ég átti að herma eftir!!!
Held að listamaðurinn í mér haldi sig bara í dvala það sem eftir er :(

12:50 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

ahahahahahahahahahaha!!!! en skemmtilegt að eyða degi í að teikna strik!!!;) Mér finnst þetta bara rosalega flott hjá þér...og ef að það er þér einhver huggun þá held ég að kennarinn þinn hefði þokkalega misst þolinmæðina ef að ég hefði verið í tímanum;) en vittu til...þú verður orðin best í strikateikningum eftir smá tíma...æfingin skapar meistarinn..margur er knár þótt hann sé smár..osfrv;)

12:55 f.h.  
Blogger sylvia said...

Kannski ertu bara of listræn fyrir að taka í gegn. Apa eftir heftir kannski talentinn????

Það má alveg finna skýringu á þessu;)

10:48 e.h.  
Blogger Rikey Huld said...

Mér finnst þetta bara lofa góðu:) En hvað þýðir þetta tákn eða er þetta ekkert sérstakt tákn?

6:02 f.h.  
Blogger Nielsen said...

Ég held það sé ekki annað í stöðunni en að sætta mig við hefta listræna hæfileika mína.

En varðandi meininguna - þá tákna þessi tákn töluna "þrjá" annars vegar (efra) og "á" (river, s.s.) hins vegar.

Takk annars fyrir stuðninginn :)

5:45 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home