27 maí, 2008

Súmódúllur

“Þeir eru sko ekki bara feitabollur í bleyjum!”

segir Tuya, vinkona mín. Hún er frá Mongólíu eins og svo margir súmóglímukapparnir og situr þessa dagana límd við skjáinn. Frá byrjun þessarar aldar hafa Mongólar unnið flest súmómótin (það eru sex mót hvert ár) og er Tuya eins konar grúppía þessara landa sinna. Sérstaklega þykir henni Hakuho myndarlegur.


Daginn sem hann kvæntist japanskri stúlku og tilkynnti að þau ættu von á litlum sómóglímukappa fannst Tuya hún illa svikin.

Aðalsjokkið kom þó í gær þegar hinn búlgarski Kaloyan Stefanov Mahlyanov, þekktur sem “David Beckham” súmósins fyrir drenglega lúkkið


vann báða uppáhalds-Mongólana hennar Tuyu og hampaði keisarabikarnum - Fyrstur Evrópubúa. Erum við ekki stolt!?!

Greyið Kaloyan, eða Kotooshu eins og hinir málhöltu Japanir kalla hann, er búinn að berjast við meiðsli í læri undanfarin tvö ár og því ekki gengið sem skyldi. Hann var því gráti nær eftir sigurinn, sérstaklega þegar hann sá japönsku áhorfendurna í salnum sveifla búlgarska fánanum. Eins og merkilegur íþróttasálfræðingur hins virta Waseda-háskóla, Lee Thompson, sagði

“Now that he’s winning, people are realizing how cute he is again.”
Að sjálfsögðu á hann súpermódelskærustu eins og svo margir kollegar hans

Oooooo....

09 maí, 2008

Yattaaa!!!

Eftir marga þögla mánuði á þessum ritli ætla ég loksins að stimpla inn nokkur orð. Það var sætur stórsigur minn í baráttunni við Íþróttaskóinn fyrr í dag sem hefur komið mér aftur í stuðið.



Nú er seinna meistaranámsárið mitt hafið og það hefur vægast sagt verið strembið. Íþróttaskórinn er í essinu sínu - tvöfaldaði tíðni fyrirlestra svo nú "fæ" ég að standa fyrir framan hann, aðstoðarprófessorinn og hina nemendurna og setja fram og sanna stærðfræðikenningar á töflunni mun oftar. Æði! Sem betur fer átti ég þó bara tvo kúrsa eftir svo stundataflan er aðeins rýmri þessa önnina og nægur tími til að undirbúa stórkostlega spennandi fyrirlestra.



En... stórsigurinn:


Enn einu sinni lentum við Íþróttaskórinn í útistöðum á föstudagsfyrirlestrafundinum okkar. Ég er komin inn á frekar þröngt svið í hagverkfræðigeiranum og kallinn er ekki alveg nógu sáttur því það er ekki hans fag. Hér fetar maður nefnilega í fótspor prófessorsins síns í rannsóknavinnunni því hann er, jú átrúnaðargoð nemenda sinna. Eitthvað er ég voðalega púkó að vera ekki að skoða "Primal-dual interior-point method for linear programming" eins og bekkjarsystkini mín...




Allavega - útistöðurnar. Ég stóð uppi við töflu og var að leiða fram jöfnu sem mér þótti afskaplega einföld og þægileg. Hún var algjörlega undirstaða þeirra niðurstaðna sem ég hafði fengið þannig að þegar Íþróttaskórinn byrjaði "aaah... eeeh.... anooo... etoooh... Þetta bara stenst ekki", leist mér ekki á blikuna.



Hér fáið þið (með brennandi stærðfræðiáhuga) að berja þessa umdeildu jöfnu augum:



Ef ég væri japanskur nemandi hefði ég afsakað mig í bak og fyrir, sest í sætið mitt og skammast mín. En, ég er ekki japönsk og ég hafði lagt heilmikið í útreikningana og þóttist nokkuð örugg með þá.


Mig langaði helst að segja honum að sitja bara rólegur á meðan ég útskýrði. En... það gera víst ekki Japanir... nei, bíðið - japanskir kvenmenn. Svo mundi ég eftir því þegar ég var einu sinni að kvarta undan kallinum við foreldra mína og pabbi minn, sem hefur nú oft verið í þessu ótrúlega landi, sagði mér að það versta sem þessir kallar vissu væri að missa andlitið fyrir framan (undir)menn sína.


Svo ég tók upp mína eðaljapönsku dömutakta, baðst afsökunar á framferði mínu og bað minn virðulegri og vitrari prófessor að vera svo vænan að fara með mér í gegnum jöfnuna svo hann gæti bent mér á hvar ég gerði mistök. Hann setti upp miskunnsama brosið sitt og gerðist reiðubúinn að leiðbeina vesælum nemandanum sínum.


Ég hóf því mína ó-svo-fögru útreikninga:


Og kallinn sagði bara "Sko - ég sagði þér!!!"

En, ég var ekki búin. Ég hafði nefnilega rétt áður verið að hámarka V með tilliti til E:


sem gerði það náttúrulega að verkum að umdeildur liður réttilega hvarf úr diffrinu og ég kallaði (ég gerði það), eins og súperhetjuvinur minn Hiro: "Yattaaa!!!"




En, nú hafði ég ekki hugmynd um hvernig japanskar dömur hegða sér í slíkri stöðu - búin að sanna að ég hafði rétt fyrir mér og að prófessorinn hafði í raun og vera rangt fyrir sér... þetta var alveg voðalegt.





Mér fannst sem það besta í stöðunni væri að þakka honum kærlega fyrir því ég hefði í raun og veru farið að efast um þessa útreikninga, en nú hefði hann svo sannarlega kennt mér að maður verður alltaf að "dobbúl-tékka" til þess að vera viss.



Hann var jú alveg sammála því og var glaður að hafa getað sýnt mér fram á það. Það var einmitt það sem hann var að reyna að kenna mér :)