19 desember, 2007

19. desember - Þeir hugrökku og fögru

Ég er í skýjunum yfir að hafa fundið þetta jólamyndband.
Á fyrri hluta tíunda áratugsins komu saman nokkrar stjörnur þeirrar stórfenglegu sápuóperu: Þeir hugrökku og fögru sem Stöð 2 sýnir á virkum morgnum (allavega þegar ég var heima) og sungu saman falleg jólalag til að minna okkur á hvað jólin snúast um - jú kærleikann.

Gjörið þið svo vel, "Kærleikur er gjöfin" með Bóld end ðe bjútífúl - Allstars!

Ó hvað hún Sallý var unaðsleg gæska.

Hó hó hó :)

18 desember, 2007

18. desember - Ég kem heim með bjöllur á

Jú, það gerist vart jólalegra en þegar þau Dollý og Kenný syngja saman.

Ég átti í mestu vandræðum með að velja aðeins eitt jólalaganna þeirra og mæli með því að þið kíkið líka á hin jólalögin þeirra í hlekkjunum til hægri.

En, Dóra og Guðný Birna - hér kemur það "Ég kem heim með bjöllur á"... eftir aðeins þrjá daga. Jibbý!!!

Hó hó hó

17 desember, 2007

17. desember - Hlauptu Dé Emm Sé

Jæja, nú hafa nokkur rólegheit einkennt jólalög síðustu ritla og kominn tími til að hrista fram jólafjörið aftur.

Grunar að pabbi minn hafi gaman af Run DMC laginu "Jól í Hollis".
Þetta er skemmtilega óhefðbundið lag sem kemur mér í jólastuðið :)

Hó hó hó!

16 desember, 2007

16. desember - Tskúbabúba

Er í skemmtilegri sveitaferð þessa helgina hjá Elínu vinkonu í Tsukuba... þar sem þeir framleiða froskakrem - krefst skýringar:

Þeir setja froskinn í lokaðan kassa með spegla á alla kanta. Hann sér þá sjálfan sig margfaldaðan og heldur að þarna séu þúsundir froska samankomnir til að ráðast á hann.

Froskgreyið verður þá óttaslegið og kófsvitnar heilum millilítrum. Svitinn drýpur svo ofan í bakka sem er svo tekinn undan kassanum og úr frosksolíunni er unnið þetta fína krem sem lokar gapandi samúræjasárum!

Lag dagsins tileinka ég öllum óttaslegnum froskum í heiminum. Megið þið finna ró í ljúfum samsöng Davíðs og Bings "Litla trommarasöngnum".

Hó hó hó

15 desember, 2007

14. desember - Sjáumst bráðum

Jú, við sjáumst sko bráðum. Í dag er nákvæmlega vika þar til ég stíg um borð í ljúfa SAS-vél og held beinustu leið heim... með smá beygju til Kaupmannahafnar reyndar. Hundrað tíma flug!

En, ég verð sko ekki ein á ferð. Nhauts, ég fæ skemmtilegan ferðafélaga, ellefu ára son vinkonu minnar sem er hér úti að læra líka. Gaman gaman.

En, þar sem við sjáumst bráðum vil ég leyfa ykkur að njóta "Sjáumst aftur" með Páli Óskari, gleraugnaglámi með meiru, sem ég rakst á á túbunni hér fyrr um daginn.

Njótið og hó hó hó :)

13 desember, 2007

13. desember - Apríkósan

Varðandi ritlu (takk Auður fyrir flotta þýðingu) gærdagsins vil ég leiðrétta tvíþættan misskilning: Nei, það var ekki ég sem var slegin og nei, það var ekki prófessorinn minn (Íþróttaskórinn) sem var svona ofbeldisfullur.

Þetta var í tíma okkar allra, fyrsta árs nema iðnaðarverkfræðideildarinnar, um fimmtíu talsins.

Yu, kínverskur nemandi, sat fremst og las dagblað á meðan aðrir nemendur héldu fyrirlestur. Rétt áður en Mo, annar kínverskur nemandi hóf sinn fyrirlestur, gekk prófessorinn - köllum hann Apríkósugróðurhúsið (bein þýðing) fram fyrir allan bekkinn, hallaði sér fram á borðið hans Yu, þannig að allir störðu, og sagði honum að það væri bannað að lesa dagblað í tíma og...

BAMMM!!!

Ég gjörsamlega missti andlitið. Það sauð á mér og það fyrsta sem ég vildi gera var að grípa töskuna mína og strunsa út. En, ég sá ekki fyrir mér að þess lags mótmæli myndu skila sér rétt, svo ég var gunga og sat áfram. Greyið Mo (sem er vinkona Yu) þurfti svo að byrja fyrirlesturinn sinn meðan skellurinn bergmálaði enn í eyrum okkar allra.

Í dag fór ég hins vegar á fund við yfirmann deildarinnar, prófessor Garn, og klagaði þetta. Hans fyrstu viðbrögð voru að segja "Þetta er gömul japönsk hefð". Prófessor Garn er í raun mjög ljúfur karl, en ég sá á honum að hann var ekki alveg að skilja að ég væri að meina, svo ég spurði "Viðgengst þetta þá hér í þessari stofnun?" Hann svaraði því að þetta væri jú bannað, en...

"En...?" sagði ég. Við ræddum þetta fram og til baka og ég gerði honum grein fyrir því að mér þætti þetta algjörlega óásættanlegt og vænti þess að prófessorar í svo merkri menntastofnun hefðu betri hemil á skapi sínu en svo að þeir beittu leikskólabarnaaðferðum við að útkljá deiluefni. Mér þætti eðlilegri refsing að vísa nemandanum úr tíma eða að lækka einkunn hans -eða eitthvað á þá leiðina.

Að lokum sagðist prófessor Garn ætla að áminna prófessor Apríkósugróðurhús. En ég verð að viðurkenna að ég býst ekki við því að Apríkósan muni þurfa að taka afleiðingum gjörða sinna. Því miður.

En, hvað um það... nú eru jólin alveg að koma og mig langar miklu frekar að hlakka til þeirra en að pirrast yfir japönsku óréttlæti.

Í dag hefði Guðný amma mín orðið 82 ára og ég ætla því að spila fyrir ykkur fallega jólalagið "Hamingjusöm jól - Stríð er yfirstaðið".

12 desember, 2007

12. desember - Ofbeldi í skólum

Hvað hugsið þið þegar þið heyrið orðin "ofbeldi í skólum"?

Eftir daginn í dag hugsa ég:

Óhugnalegur japanskur prófessor sem stendur drottnunarlega yfir nemanda sínum fyrir framan fullan sal og slær hann af afli í andlitið með pappírsstafla!?!?!?!?!?!

Jú, allir í jólaskapi.

Ég hef ákveðið að tileinka uppáhaldsjólalagið mitt "Síðustu jól" vini mínum, Yu. Georg Mikjáll getur kætt alla!

11 desember, 2007

11. desember - Emm Síí

Jæja, nú er komið að henni Emm Síí og hægri vanganum.
Auður - "Það eina sem ég vil um jólin ert þú-ú-ú"

Mússímú og hó hó hó

10 desember, 2007

10. desember - Hárfegurð

Gvöð minn hvað hann var gasalega kynþokkafullur!

Hallið ykkur aftur og hlýðið á undurfagra tóna Mikjáls Boltons.
Hvern dreymir ekki um "Hvít jól"?

09 desember, 2007

8. og 9. desember

Japanir kunna sko að halda upp á jólin... þó svo þeir viti ekki alveg hvað þetta snýst allt um. Á aðfangadag borða þeir hina hefðbundnu jólaköku
... eins og við öll hin.

Á jóladag leiðast pörin úti á götum - það er sko aldeilis ekki gaman að vera einhleyp(ur) á jólunum í Japan.

Jólaskreytingarnar eru heldur ekki af verri endanum og ímyndunaraflið er í algleymingi. Verð þó að segja að mér þykir þeir dálítið ringlaðir, ef marka má þessa búðaauglýsingu...

Jólalag dagsins í dag heitir "Flýtið ykkur jól" og er flutt af japanska strákabandinu L´Arc en Ciel. Stór smellur hér þessi jól.
Njótið - hó hó hó!

07 desember, 2007

7. desember - Ammlisbarnið Hildur

Til lukku með daginn ljúfan :D

Hér kemur Djösstin þinn og félagar með jólasmellinn "Gleðileg jól og hamingjusamar hátíðir"
Mikið gasalega þurfti drengurinn á "meikóveri" að halda. Þessir lokkar - þessir gullnu lokkar. Hrikalegir! Og peysurnar... úffness! En, þeir eru barngóðir með eindæmum og alþjóðlegir með hamingjuóskir á mörgum tungumálum í bakgrunninum.

Hó hó hó :)

06 desember, 2007

6. desember - Læra, læra, læra

Á morgun held ég síðasta fyrirlesturinn minn fyrir jól. Ég ætla því ekki að blaðra, heldur kynni bara jólamyndband dagsins:

Bobbi Gelludoffi og Plástrarnir, "Vita´ðau að það eru jól?"

Hó hó hó

05 desember, 2007

5. desember - Jóladill

Ég man nú eftir fjörinu í "gamla daga" þegar jólin nálguðumst og ég dillaði mér við þessa fjörugu fjórmenninga.
Lag dagsins tileinka ég mömmu sem átti þessa æðislegu kasettu.
Drengbarn Maríu/Ó drottinn minn með Boney M.

Hó hó hó

Ps: Takið eftir dillinu hjá gæjanum

04 desember, 2007

4. desember - Balí

Nú er Balíspennan í hámarki... og nær hún næstum að toppa jólaspennuna... nhauts!
Það er líka alltof heitt á Balí og svei mér þá, ekki er það jólalegt.

Jólalag dagsins í dag er ekki jólalag. Þó er myndbandið jólamyndband.
Fyrir hana Hildi mína Búsom, hér kemur Robbi Vilhjálms með "Eitthvað heimskt".

Hó hó hó!

03 desember, 2007

3. desember - Sjipp og hoj

Vakti laugardagslagið "Sjipp-o-hoj" með Dr. Spock jafnmikla kátínu hjá ykkur og mér?

Jólalagsmyndband dagsins í dag er lagið Jólatími með glysrokksveitinni Rökkrinu og vil ég tileinka það Hafrúnu sem kynnti mig fyrst fyrir þessu æðislega bandi.

21 dagur til jóla - Hó hó hó!

02 desember, 2007

2. desember - Frönsk krúttíbolla

Hver man ekki eftir skemmtilegu kvikmyndunum "Sjáðu hver er að tala"?

Myndband dagsins í dag er úr jólamyndinni "Sjáðu hver er að tala núna" (og minnir mig að það hafi verið voffin sem talaði í þetta skiptið...)

Sænskar kjötbollur eru góðar... en franskar krúttíbollur eru enn betri.
Njótið :)

Hó hó hó

Ps: Mæli eindregið með því að þið kíkið líka á myndbönd við Djordí Sítrónu-lögin "Alíson" og "Durr durr segirðu elskan" (sérstaklega þá læv útgáfuna þar sem hann tryllir kvenlýðinn).
Ú-la-la beibí!
Góðar minningar :)

01 desember, 2007

1. desember - Fullveldi og næstum því jól

Í dag flaggar maður

Til hamingju Ísland!
Nú er jólamánuðurinn loksins hafinn. Fram að jólum ætla ég að halda upp á hvern dag með góðu jólalagi.
Fyrsta jólamyndbandið tileinka ég Karitas minni.
Hennar fyrsti - hennar eini sanni... Bonn Djóví!
Hó hó hó!