25 nóvember, 2007

Athugasemdalæsing

Jú, ég er búin að nefna bloggið mitt að nýju.

Til að svara spurningu Sveita-Berglindar, þetta er setning úr Sætum nóvember. Reyndar þótti mér þessi kvikmynd óskaplega slök, en að þessari setningu hló ég þó endalaust lengi og enn, þónokkrum árum seinna, skýst hún af og til upp í kollinum.

En, á öðrum nótum, kannast einhver við að geta ekki gert athugasemdir við bloggfærslur? Ég virðist ekki einu sinni geta gert athugasemdir við mitt eigið blogg. Hvílík hneisa!

Hvað er til ráða?
Herp prease!

20 nóvember, 2007

Útlenskan er út

Ég hlustaði vel og vandlega á menntamálaráðfrú og hef skömmustulega ákveðið að snúa nafni bloggsins míns yfir á íslensku.

Þó þykir mér "Verðandi japönsk" ekki nógu fínt og ætla því að halda því nafnlausu um stundarsakir, á meðan ég finn skemmtilegt nafn með tilvitnun íJapan.

Einhverjar hugmyndir?

15 nóvember, 2007

Sparka í px*$inn!

Ég hef löngum óttast það að lenda í klóm bandarískra bófa og geta það engum tilkynnt öðrum en áströlskum lögreglumanni.

Þessi ótti er einnig til staðar meðal japanskra kynsystra minna og hafa þær nú tekið höndum saman og útbúið þetta ágæta myndband.

Ég minnist þess nú sjálf að hafa samið vísur um Tyrkja-Guddu og brunann í Köbenhavn og sungið við íslensk dægurlög til að stimpla það betur inn fyrir próf.

Nú kann ég réttu viðbrögðin og óttast ekki neitt.

10 nóvember, 2007

Gulltryggð

Ég er svo kát!!!

Það hlaut að koma að því! Við (ÉG) segjumst alltaf munu vinna, en NÚ er loksins komið að okkur!

Í byrjun tókst Rósinkransinn að vekja upp í mér trúarlegar hugleiðingar með gospelinu sínu. Hann gaf mér von - þó litla.

Eftir þann fyrsta Laugardagslagaþátt þótti mér þó gæðum laganna hraka verulega og velti því fyrir mér hvort ég gæti ekki varið tíma mínum betur. Ég batt þó vonir við fyrra lagið hans Barða og horfði áfram en það olli mér miklum vonbrigðum sökum afskaplegrar hamingju - sem ég kann engan veginn að meta í tónlist.

Nú hefur drenginum þó heldur betur tekist að blása lífi í vonglæðurnar mínar. Hann hefur gengið kænskulega að þessu verkefni, mælt, vegið og metið - og uppgötvað! Hér er kjarni sigurlagsformúlu Barða:

Skækjulega fáklædd söngkona með tíunda áratugs upphandleggs-skartgripi.

Ber að ofan töffari með þýska-fána svitaband sem galar "Eins - Zwei - Drei - Vier - Fünf - Sechs - Sieben -HARDCORE!" Hver er hann? Derhúfan segir Marky Mark en "Harda´ harda´ harda´"-galið segir Scooter.

Svo internasjónal!

Það sem þó mun hala inn mestmegni Austur-Evrópuatkvæðanna og að lokum tryggja okkur sigurinn eru olíubornu vöðvabúntin í bakgrunninum sem berja á tunnutrommur - Séreinkenni þeirra Evróvísjón-laga.

Við erum gulltryggð með "Ho, ho, ho, We say hey, hey, hey"