30 ágúst, 2005

प्रेमी

Ég hef eignast प्रेमी!
प्रेमी þýðir "kærasti" á hindí. Ég eignaðist hann á netinu, hef einhvern veginn bætt honum inn á MSN-ið mitt. Síðastliðinn föstudag ræddum við veðrið á Indlandi og í gær urðum við par.

प्रेमी minn er rosalega kúl á því - talar svona "cyber-tungumál" með skammstöfum eins og "lol", "plz" og ýmislegt annað sem ég hef engann skilning á. Ákefð hans er nú orðin töluvert meiri en ég bjóst við. Hann heimtar að fá mig til sín í borgina sína, sem er víst sú flottasta í öllu Indlandi. Þá getur hann verið alvöru प्रेमी minn.

Gærdagssamræðurnar fólust í suði um að ég kæmi í "web-cam" samtal (sem er vinsælt hjá svona cyber-töffurum eins og प्रेमी mínum), en eins og sannri dömu sæmir, geng ég ekki svo langt á öðru stefnumóti. MSN-blæjan skal hylja andlit mitt eins og प्रेमी minn ætti að vera vanur. Ég vona bara hann sé ekki svona hindí-pleijer og spili bara með ginnkeyptar stúlkur eins og mig á hverjum degi. Ég bara veit ekki hvernig ég get komist að því hvort hann sé "one woman प्रेमी"?

25 ágúst, 2005

Tollir hann?

Ég er mislukkað glæpakvendi. Ég reyndi að komast undan því að borga toll og var gómuð við það.

Eftir að hafa í sumar handleikið einstaklega faglega myndavél á hringferð minni um landið hef ég tileinkað mér óþarfa snobbað hugarfar þegar kemur að ljósmyndun. Skömmu eftir heimkomu reyndist það hin brýnasta nauðsyn að eignast Canon Digital Rebel XP myndavél. Ég vafraði skipulega um netið í leit að hinni fullkomnu vél. Hana fann ég að lokum í bandarískri verslanakeðju og keypti, án þess að þurfa að borga þarlendan "vask", og var nokkuð stolt af útsjónarsemi minni.

Enn fremur, til að forðast þann mikla óþarfa að borga toll ákvað ég að senda vélina á heimili minnar amerísku fjölskyldu. Þau sendu mér svo vélina og tilgreindu við starfsmann póstþjónustunnar að um gjöf væri að ræða, enda átti ég afmæli í vikunni sem leið.

Þetta bragð mitt virkaði nú ekki betur en svo að í vikubyrjun fékk ég senda heim formlega beiðni frá Íslandspósti, að þau hafi gripið mig glóðvolga við þetta óforskammaða athæfi - að ég skuli faxa þeim skriflegt leyfi þess að þau megi opna kassann. Þau grunaði að hér væri um að ræða mun hærri upphæð en tilgreind er á þeim skjölum sem ég lét þeim í té.

Ég ákvað nú að ganga í málið og kanna hvernig þessum málum er háttað - hvort ég hefði nú ekki rétt á því að fá til mín senda "gjöf" erlendis frá án þess að þurfa að borga af henni toll. Þetta er það sem ég fann á althingi.is:

Lög um breytingar á lögum um álagningu gjalda á vörur.
I. KAFLI
Breytingar á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.
1. gr. 5. gr. laganna ásamt fyrirsögn verður svohljóðandi:
Tollfrjálsar vörur. Auk þeirra vara sem tollfrjálsar eru samkvæmt beinum fyrirmælum í tollskrá skulu eftirfarandi vörur vera tollfrjálsar:
...
Gjafir sem sendar eru hingað til lands í eftirfarandi tilvikum:
a. Gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda hingað af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 7.000 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 7.000 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti. Brúðkaupsgjafir skulu vera tollfrjálsar þótt þær séu meira en 7.000 kr. að verðmæti, enda sé að mati tollstjóra um eðlilega og hæfilega gjöf að ræða.


Sem sagt, ég á ekki rétt á því að fá senda gjöf erlendis frá yfir sjöþúsund króna markið án þess að gifta mig. Hvaða mat tollstjóra er þetta - eðlileg og hæfileg hvað? Hvurslags hneysa!?! Hvernig skal snúa sér í málum sem þessum?

19 ágúst, 2005

Saumakonan 2

Saumakonur lesa blogg!

Mín biðu skilaboð í talhólfinu um að vinsamlegast koma í mátun... "nú hefðu sumir tíma fyrir mig". Ég peppaði upp stálhjartað og ætlaði ekki að láta dömuna valta yfir mig líkt og fyrri daginn.

Mér til mikillar undrunar og gleði, skælbrosti hún þegar ég kom inn, rétti mér kjólinn og bað mig að fara í hann "vinan". Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið - og var hálfpartinn upp með mér. Svo var daman svona mjúkhent við mig og glaðlynd. Þetta var í raun hin ljúfasta mátun.

Ég hef sterkan grun um að hún lesi bloggið mitt!!!

Saumakonan

Hvar fara saumakonur í bissnissskóla??
Hélt á ónefnda saumastofu í gær með kjól sem ég vildi láta breyta fyrir bryllup Dóru og Bjarka. Sem virgin í samskiptum við saumakonur gekk ég græn inn um dyrnar við mikinn bjölluglym.
Ég skýrði mál mitt og fór í kjólinn.

Ég hélt að konan ætlaði að sparka mér út. Hún setti upp hneykslunarsvip og hreytti í mig "Nei, þetta er mikið verk - þetta er MJÖG mikið verk". Ég hissa sagði "Ha, er það?" og þá hreytti hún aftur í mig "Já, þetta er miklu meira verk en það lítur út fyrir að vera - þetta mun kosta mikið". Minnug mikilla pretta á mörkuðum Tælands ákvað ég nú að snúa vörn í sókn og sagðist bara geta farið með kjólinn eitthvað annað, en þá tók hún upp títuprjónana og byrjaði að festa mig í kjólinn. Ég gat engum vörnum við komið, hélt mér bara á mottunni og sneri mér eins og hún skipaði :(

Nokkrum furðulegum stellingum síðar - og eftir mikil andköf saumadömunnar minnar spyr hún hvenær ég þurfi kjólinn, "því kjólakonan hennar er í fríi og hún hefur ekki tíma í svona lagað". Ég sagði henni að ég væri á leið í brúðkaup þann 27. Þá ætlaði ég alveg að ganga frá henni því hún galaði upp yfir sig "Maður fer ALDREI í brúðkaup í svörtu" (kjóllinn er s.s. svartur).

Einstaklega konnfjúsed hélt ég út af stofunni og inn í bíl. Ekki vil ég valda ógæfu í hjónabandinu... Ég þori varla að fara og ná í kjólinn, er hrædd um að hún sé búin að fiffa hann lymskulega til þ.a. hann rakni utan af mér í kirkjunni. Spurning hvort maður verði með einn vara í veskinu...?