21 júlí, 2008

Hið japanska terebí

Senn líður að lokum dvalar minnar hér í neonborginni. Það er svo sannarlega margt sem ég mun sakna héðan; maturinn, karaoke-ið, kurteisin, ljósin & lætin, krúttíbollubörnin, módeladansiböll, gamla konan á horninu sem heilsar mér alltaf og biður mig að koma "heil á húfi" aftur heim, skólinn minn og að sjálfsögðu aðalkallinn - Mízúnó.

En, eitt stendur þó upp úr: Sá unaður sem er japanskt terebí (stytting á orðinu "terebision" eða "television" eins og sjónvarp heitir víst á ensku).

Hér eru miklu fleiri stöðvar en heima á Fróninu og Japaninn býður upp á "stórkostlegheit" hverja mínútu. Það er skemmst frá því að minnast þess þegar við Tuya misstum af vinum okkar á dansiballi því við gátum ekki fyrir nokkurn mun rifið okkur frá döbbaðri Anacondu Tvö á Fuji stöðinni.

Unaður númer eitt:
Hér sjáið þið upphafslag hinnar æsispennandi þáttaraðar Changeman eða, eins og ég kýs að kalla það: Breytingamaðurinn.

Unaður númer tvö:
Breytingamaðurinn er alltaf svolítið ógnvekjandi, mikið af sprengingum og vonduköllum. Hér berjast Breytingadrekinn og Búba til síðasta blóðdropa. Þori varla að horfa...

Unaður númer þrjú:
Godzilla, sem þýðist yfir á íslensku Góða Silla, er án efa eitt af þjóðarstoltum Japana. Hún er sko ekki bara stór og ófrýnileg eðla heldur misskilin og einmana.

Hér mætir Góða Silla erkifjanda sínum: Kíng Kong. Greyið á svo erfitt með að tjá tilfinningarnar sínar og verður svo agalega vandræðaleg. Hún kemur í leit að annari big size ófreskju (því það er svo óskaplega auðmýkjandi að vera stór í Japan) til að elska en allt fer í klessu :(

Góða Silla er einstæð móðir og stritar daginn út og daginn inn við að ala önn fyrir barninu sínu, Góðu Sillu Djúníor sem hún elskar afskaplega heitt. Inn á milli kennir hún honum drápslistina.

Ég gæti fundið Góðu Sillu-klippur í hundraða tali, en þarf að klára verkefni fyrir morgundaginn. Ég lýk því þessum ritlakafla með tilfinningaþrungnu augnsambandsmómenti.

Njótið :)

08 júlí, 2008

Sveitavoffarnir

Þá er ég nýkomin í metrópólið eftir friðsæla helgi í sveitinni. Fór og heimsótti Amöndu, norður-írsku vinkonu mína sem býr í miðju hvergisins nyrst á Tohoku-eyjunni, Iwate-ken.

Það var gaman að blanda geði við sveitalúðana. Allir afskaplega afslappaðir og ljúfir.

Mest þótti mér þó til hundanna koma - þeir voru í alvöru stærðum þar. Ekki þessar litlu Tókýó-tíslur með tígaspena og kórónur.

Það urðu nokkur skemmtileg hundatengd skilti á vegi mínum í fjallaleiðöngrunum.

Hér sjáið þið hvernig eigendum er gert skylt að þrífa upp skítinn eftir voffana sína.
Ef þið lítið nánar þá sjáið þið hvað hundsgreyið roðnar við það þegar húsbóndinn hans skóflar skítnum í pokann. Agalega vandró.



Svo vorum við Amanda að dást að því hvað bönnuðu hlutirnir eru hér látnir koma fram úr rauða "bann-merkinu"... þriðjuvíddarlegt og flott, jafnvel þó óbreyttur sveitungur hafi teiknað þetta.



En svo sáum við að hér var meira athugavert við skiltin. Hundaskíturinn í sveitinni titrar!!!