31 júlí, 2007

Móðir Ghandi Nielsen

Frá því ég kom inn á tókýóska leigumarkaðinn fyrir rúmum fjórum mánuðum hafa hrúgast inn um lúguna mína kosningabæklingar gamalla kalla, tilboð frá hinum ýmsu skyndibitastöðum hverfisins og reikningar.

Ólíkt áður fyrr vekur það mikla lukku þegar reikningarnir í “Royal City Villa” eru opnaðir. Það er alltaf jafnspennandi að sjá hvaða aðila viðkomandi innheimtuaðili hefur ákveðið að rukka hverju sinni.

Gasveita Tókýó sendir reikning á Nirusen Rudoni í hverjum mánuði.
Vatns-og skólplagnir borgarinnar rukka svo Niiruse Gudoni og Rafmagnsveitan Nirusen Gushini.

Ég er nýbúin að skipta um símafyrirtæki og nú tekur heldur betur við mikil gleði þegar ég opna reikninginn frá þeim. Þar er ég á skrá sem Nirusen Gandi.

Ætli Japanir séu tilbúnir að taka mér sem “móður” þjóðarinnar? Orð fá ekki lýst hve stolt ég er af því að bera þetta virðulegt nafn.


Ghandi, loksins í sumarfríi, kveður að sinni.

04 júlí, 2007

Minningar Guðnýjar

Ég hef hafið störf á lókal geisjubúllunni, 桂お座敷.

Það er strembið starf að vera geisja. Hún er reyrð niður á alla kanta - svo hún á erfitt með að anda og getur rétt með gífurlegum erfiðleikum sest niður og staðið upp. Hún er innvafin, víruð, spennt upp, toguð og teygð. Öllum skrúðanum þarf hún að halda í skorðum á meðan hún syngur, dansar og þjónar.Geisja er þó aldrei of þreytt til að gefa "písmerki"


Leiðinlegasti partur dags í lífi geisju er rúmur klukkutíminn sem hún þarf að sitja í förðunarstólnum á morgnana. Andlit hennar er útklínt leðjuþykku kalkpúðri og augun svo stífpensluð að augnhárin mynda blævængi.

Kalkpúðrið er meira að segja sett á axlirnar


Hælarnir eru ekki af verri endanum

Þrjár litlar geisjur


Samúræjageisjur
Dræsuleg geisja

Geisjur með gorgeir

Lokkandi hnakkafarði

Það er daglegt brauð í lífi geisju að rífast við samgeisjur sínar. Oftast snúast rifrildin um höfuðskraut, blævængi, yen og sykurpabba.Það fylgir því mikill léttir fyrir geisju, að taka farðann af að loknum vinnudegi :)