26 júní, 2006

Gazalegur hryðjuverkamaður

Í TI Tech er margt um útlendinginn. Við komum alls staðar frá og erum mjög ólík. Einn þeirra sem eru með mér í japönskunámskeiðinu er Dia. Hann er palestínskur, en ekki nóg með það, hann er frá Gaza svæðinu.

Dia hefur búið í Tókýó í þrjú ár og kann varla stakt orð í japönsku. Hann segist ekki vilja læra tungumálið en prófessorinn hans hafi skipað honum að sitja námskeiðið. Dia er voðalega óþekkur í tímum. Hann geispar stanslaust og teygir sig, en hvort tveggja þykir mikil ókurteisi hér. Hann svarar spurningum kennaranna oftast á ensku og lærir aldrei heima. Hann skrópar oft í tíma og lýgur að kennaranum að hann hafi öðrum hnöppum að hneppa. Svo komum við að honum þar sem hann situr úti í góða veðrinu og smjattar á ís.

Í frímínútum reynir Dia oft að fitja upp á samræðum um Mið-Austurlönd, þá sérstaklega um Palestínu og hryðjuverk. Hann veit ástæðurnar að baki öllum hryðjuverkum í heiminum og hefur óteljandi samsæriskenningar um þau öll.

Stundum talar hann um viðskiptin sem hann á í við Rússa með gull. Hann segist þegar hafa grætt heilmikið á því.

Ensku, bandarísku og spænsku nemendurnir eru í miklu uppáhaldi hjá Dia því þau hafa upplifað hryðjuverkaárásir í sínu heimalandi. Hann eltir þau um allt og spyr þau hvað þeim finnist um “hryðjuverka-þetta” og “hryðjuverka-hitt”. Ekki get ég sagt að ég sé vinsæl hjá Dia, enda kemst Ísland ekki nálægt því að vera eins spennandi og Gaza!

Ein vinkona mín hér er frá Spáni. Hún er afskaplega taugaveikluð og bregst óendanlega illa við hvers kyns ólukku. Ég held ég hafi aldrei kynnst annari eins manneskju. Hún situr við hliðina á Dia í tímum og er því neydd til að hlusta á hann meðan hann lætur móðann mása. Með hverjum deginum magnast stressið í henni. Verri sessunaut gæti hún varla hafað valið sér.

Dia er að læra efnaverkfræði með áherslu á TNT og dýnamít

12 júní, 2006

Kræktur í tilfinningu

Það vita það eflaust flestir að David Hasselhof - eða Davíð Höstlhof, eins og ég kýs að kalla hinn mikla karlmann - var eitt sinn söngstjarna.Höstlhofið átti þónokkra smelli og var hvað vinsælastur í Þýskalandi með lagið Hooked On A Feeling. Kíkið á glæsilegt myndbandið og takið þátt í kosningunni hér til hliðar.

Njótið :)

06 júní, 2006

F, fyrir...

Vongóð hélt ég í lókal-Kringluna um daginn. Fann þar enga spjör sem passaði á meira en litla fingur...
Í Japan er M raunverulega XS og S er XXS. L stærð er illfáanleg og krefst slík fundvísi allverulegrar heppni og útsjónarsemi. Það má verja heilum degi í þess lags fjársjóðsleit.

Ég taldi mig hafa dottið í lukkupottinn þegar ég fann nýja stærð: F !!!
Í þvílíkum æsingi hraðaði ég mér inn í skiptiklefann og klæddi mig í flíkina... (því miður var ég ekki með KarÓlínu myndavél með mér svo þið verðið að styðjast við neðanverða mynd):

Þessi glæsiflík var semsagt það eina sem ég passaði í þennan daginn og get ég tæpast sagt að hún hafi farið mér vel. Ekki veit ég við hvaða tilefni Japanskar "yfirstærðarkonur" klæðast fatnaði sem þessum, kannski ef þær ætla að hitta Batman eða búast við að þurfa að hefja sig til flugs...?

Flíkina keypti ég ekki.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað F stendur fyrir. Mér finnst líklegast að það standi fyrir Fat.