29 september, 2006

Tú leit Ómar Ragnarsson!

Hefði Ómar Ragnarsson komið með þessa stórkostlegu hugmynd fyrir nokkrum mánuðum þá hefði ég þokkalega tekið þátt í mótmælaaðgerðunum.

Hvers vegna beið hann þar til byrjað var að fylla lónið með að stinga upp á JÓLASVEINALANDI við Kárahnjúka.

Allir sem mig þekkja vita að það er hægt að fá mig til nánast hvers sem er ef það mun auka á jólastemninguna - sem þó lifir í hjarta mínu 365 daga ársins.

Í Kastljósinu í gærkvöld sagði Ómar, nýi besti vinur minn, í miklum æsingi:

Við getum verið með jólasveinalandið hér fyrir norðan þar sem við gjörsamlega söltum Finnana. Finnarnir fá milljónir manna til þess að skoða jólasveininn – sem er bara með hreindýr og frosið land. Myrkur og skóg.
Við erum með fjöll og við erum með 13 jólasveina, Grýlu og Leppalúða og allt!

Við tókum Svíana út úr HM og næst hefðu Finnarnir mátt vara sig í jólakeppninni, því Ísland er jú - Bezt í heimi!


Tú leit, Ómar - Tú leit! Ooohhh...

22 september, 2006

príMADONNUtrans

Hey, herra plötusnúður!
Settu plötu á fóninn.
Ég vil dansa við elskuna mína!


Það er ógerlegt að fara á Madonnutónleika án þess að dansa ALLAN TÍMANN.

Við Tomoe mættum stundvíst (enda hún japönsk og ég "törning") klukkan sjö í Tokyo Dome höllina, sem var böðuð í bleikum og fjólubláum ljósum. Sitt hvoru megin við sviðið voru risastórir glimmerhestar (Gobbedígobb hoho er víst sportið hennar Madonnu um þessar mundir) og langur "catwalk" inn í áhorfendaskarann.

Þetta voru síðustu tónleikar príMADONNUNNAR á Confessions-túrnum og lét hún bíða eftir sér í rúman klukkutíma.

Við Tomoe að deyja úr spenningi! En - þó ekki jafnmiklum og öskrandi sæta-nágrannar okkar eða hýru drengirnir tveir fyrir framan okkur sem voru byrjaðir að syngja og dansa áður en ljósin voru kveikt.

Daman við hliðina á mér sýndi hins vegar mikla stilli enda, eins og við síðar komumst að, var ansi sjóuð í Madonnu-sjóum. Hún var jafngömul príMADONNUNNI, gift og þriggja barna móðir. Hún kom ein á tónleikana því engin vinkona hennar hlustar lengur á poppdrottninguna. En, vinkona okkar var búin að vera "fan" síðan í byrjun, kunni öll lögin og dillaði sér á japanska vísu með skýrum príMADONNUtöktum. Hún hafði séð tónleikana hennar hér í borg fyrir 20 árum.

Þegar söngkonan spengilega loksins birtist, út úr risastórri diskókúlu á sviðinu, stukku allir upp úr sætunum sínum með þvílíkum látum. Það sem eftir var kvölds stigu allir trylltan dans, böðuðu höndum í allar áttir, hoppuðu, klöppuðu og hrópuðu. Minning mín af þessum herlegheitum er í eins konar móðu og ég var í hálfgerðu transi... DansTransi allt kvöldið.

Madonnan var hápólitísk, bæði í söngi og dansi - sýndi klippur alls staðar að úr heiminum. Félagi hennar, Bush fékk að baða sig í spottlætinu mikinn hluta tímans. Hún var líka ófeimin við að "gefa fingurinn" út í loftið og að áhorfendum. Að sjálfsögðu var daman ágætlega "vúlgar" eins og henni einni er lagið.

Diskófílingurinn var í hávegum hafður mestallan tímann. Nýju lögin hennar eru fantagóð! Ég öskraði mig hása og þorði ekki á klósettið, hrædd við að missa af einhverju. Ég meira að segja felldi tár þegar hún söng "Live to Tell" við og á krossinum margumrædda.

Tífalt húrra fyrir MADONNU!!!

02 september, 2006

Ástin lengi lifi!

Ég lét hafa mig út í einhverja vitleysu.

Vinkona mín hér á heimavistinni stendur að skipulagningu ráðstefnu um “Ást og hjónabönd”. Þar munu einhverjir sérfræðingar í þessum málum fara með erindi. Mér skilst að þeir séu sálfræðingar og líffræðingar (með dýra-hegðun sem sérsvið).

Þarna verða einnig nemendur, erlendir sem innlendir, í einhvers konar umræðuhóp. Ég er s.s. búin að samþykkja að taka þátt í þessari umræðu... nú að sjálfsögðu... þetta er nú mitt fræðasvið...


Ég mun því sitja uppi á sviði og fræða fólk um stöðu þessara mála á Íslandi, svara spurningum og varpa spurningum til hópmeðlima minna.

Sjitt!

Ég er búin að næla mér í ýmsar tölur frá Hagstofu Íslands yfir hjónabönd (aldur kynja, kynhneigð, skilnaði, barneignir). Það virðist nú allt vera á hreinu með það.

Hins vegar hef ég ekki hugmynd hvað skal segja um ÁST á Íslandi? Hvað er sérstakt við ást á Íslandi - ef eitthvað?

Hafið þið einhverjar hugmyndir? Um sérstöðu ástar eða hjónabanda á Íslandi???
Hjálp!