27 nóvember, 2006

Vondast - Bestast

Versti tími vikunnar
hefst þegar ég vakna á sunnudagsmorgni. Draumfarir þáliðinnar nætur einkennast
af miklum vandræðagangi sökum stress-skýs sem hangir yfir mér. Skýið er við það að ná hámarksþéttingu um kl. 8 og við það vakna ég.

Ég sest upp í rúminu og tel í huganum fjölda klukkutíma til stefnu: 29. Best að koma sér að verki.
Á sunnudögum leyfi ég mér fátt. Ég horfi ekki á fréttir Ríkissjónvarpsins og gremst það mikið að þurfa að fresta því að horfa á Spaugstofuna (sem mér þykir hafa verið afburðagóð upp á síðkastið og þá sérstaklega danski þátturinn). Ég fer hvorki út með ruslið né út í búð til að kaupa mat. Ef ísskápurinn er tómur, þá helst maginn tómur!

Nei, það má enginn tími fara til spillis. Ég sit við tölvuna og reikna sem aldrei fyrr.

Hve lengi þetta reikni-æði stendur yfir fer eftir duglegheitum undanfarinnar viku.
Eins og grafið hér til hliðar sýnir helst vöxtur duglegheita jafn frá mánudegi til laugardags.
Talsverðrar óskhyggju gætir þó í þessum tölum, enda halli upp á tvær klukkustundir frekar ólíklegur þegar tekið er mið af athyglisgetu höfundar.

Það gífurlega stökk sem á sér stað á sunnudegi á þó við rök að styðjast enda þarf höfundur að vinna upp þann tíma sem fór til spillis, t.d. með því að skoða blogg vina sinna og ræða um ekki baun í bala við vini á msn. Mestallur sunnudagurinn fer því í lærdóm.
Um kl.2 aðfaranótt mánudags kemur tvennt til greina:
A: Reikningar nægir og allt að 6 næstu klukkustundum er varið í svefn.
B: Reikningar ónægir og óumflýjanlegt reynist að taka einn all-nighter.
Hámarks slæmlegheitum er náð kl. 13:20, þegar kemur að mér að halda fyrirlestur.
Ég stend þá við töflu og leiði út og sanna óskemmtilegar formúlur og kenningar fyrir Íþróttaskóinn (Mizuno prófessor), Nakatta (mállausi, fýlupúka-aðstoðarprófessorinn), Kitahara (dúllu-doktorsneminn og vinur minn) og Hadi (íranski rannsóknarneminn sem er á markaðnum fyrir vestræna frillu).
Besti tími vikunnar
hefst kl. 14:30 á mánudegi þegar ég geng út úr fyrirlestrarherberginu með bros á vör eftir að hafa massað fyrirlestur.
Því miður er það þó ekki alltaf sem mössun á sér stað. Langoftast er mössunin fjarri góðu gamani og ég stend fyrir framan þessa fjörugu kalla og stama þegar þeir spyrja og spyrja og spyrja... Nei, það er ekki gaman.

17 nóvember, 2006

Kannsk´er ástin...

Það var engin lygi: Ég var fengin til þess að koma fram fyrir hönd Íslendinga á alþjóðlegri ráðstefnu um ást og hjónabönd í Tókýó.

Vopnuð þeim upplýsingum sem áætur vefur Hagstofu Íslands veitir, mætti ég í ráðstefnusalinn þar sem við mér blöstu skærbleik ljós og hjartalaga skreytingar.
Tvær dragtarklæddar dömur leiddu mig upp á sviðið þar sem mér hafði verið merktur staður á löngu borði. Þær buðu mér að setjast og festu svo á mig einhvers konar eyrnabúnað. Síðan bentu þær upp í glerbúr á efri hæð salarins þar sem sátu tvær dömur, tilbúnar að þýða ensku útlenskra fyrirlesara og japönsku þeirra innlendu.

Formlegheitin voru, vægast sagt, sjokkerandi og það rann snögglega upp fyrir mér að þetta var ekki smámál, eins og ég hafði haldið. Hér átti ég virkilega að sitja uppi á sviði fyrir framan fullan sal af fólki og halda fram meiningu ástar og hjónabanda á Íslandi.

Ég sat í panel ásamt fimm öðrum, Suður-Kóreubúa, Tékka, Rússa, Írana og Kínverja.

Á öðru borði sat japanskur listamaður sem kynnti verk sín sem öll miðuðu að því að mynda tengsl milli fólks í mismunandi löndum. Hann hafði sett upp sýningar víðs vegar í Evrópu og Asíu og sýndi fram á að munur væri á því, milli fólks í löndum þessara heimsálfa, hvernig þau túlka ást.

Á enn öðru borðinu sat japanskur líffræðingur sem hafði varið mörgum mánuðum í að rannsaka mökun górilla og apa í frumskógum Afríku. Þessum fyrirlestri fylgdu alls kyns rit og myndir sem áttu að sýna fram á mismunandi mökunarferli apa A, B og C annars vegar og górilla A, B og C. Ég gat með engu móti gert greinarmun á neinu, enda litu allir aparnir slash górillurnar eins út fyrir mér. Það var þó mjög skemmtilegt að fylgjast með orðavali þessa lífffræðings því enskukunnátta hennar var af skornum skammti og hún notaði ýmis "skrautleg" orð til að lýsa öllum ósköpunum.

Minn fyrirlestur var svosum ekkert spennandi. Ég veitti miklum tíma í að útskýra móttækileika samfélags okkar Íslendinga gagnvart samkynhneigðum og ungum, sem og einstæðum foreldrum.

Japanirnir eru í íhaldssamari kantinum hvað varðar þessa hluti og vakti flest, ef ekki allt, mikla undrun. Ég fékk því aragrúa spurninga sem var mjög skemmtilegt að svara. Spurningar sem féllu af vörum Indverja voru þó í mestu uppáhaldi hjá mér, enda ansi sjóuð í rökræðum við þann flokk karlmanna.

Hann var dónalegur og dómharður og bar spurningar sínar þannig upp að þær voru í raun ekki spurningar heldur hans skoðanir... og hann hafði miklar og margar skoðanir! Já, það kom mér ekkert á óvart þar.

Ég svaraði að sama skapi og... ég vann!

Allt heppnaðist þetta nú vel og ég fékk geisladisk með öllum herlegheitunum. Svo, þið ykkar sem spennt eruð getið nálgast hann hjá mér um jólin.

Ég er búin að setja myndir af ráðstefnunni inn á myndasíðuna mína hér efst til hægri. Af einhverjum ástæðum neitar bloggið að hleypa þeim inn á sjálfan póstinn :(

10 nóvember, 2006

Sæt paradís.

Við Tuya, vinkona mín frá Mongólíu, skrópuðum í seinni japönskutímann okkar í dag og fórum þess í stað á veitingastað í Shibuya sem okkur hefur lengi dreymt um að fara á.

Sweet Paradise heitir sá staður og er einmitt það: Sæt paradís!

Brosmildir starfsmennirnir fagna komu manns með hinu hefðbundna gali IRASSHAIMASEI og leiða mann að maskínunni. Þar borgar maður u.þ.b. 900 íslenskar krónu og fær miða, rétt eins og á lestarstöðvunum. Síðan er manni sýnt hvað klukkan er og tilkynnt að nú hafi maður nákvæmlega 90 mínútur til að borða eins og maður getur.


En, þetta er ekkert venjulegt hlaðborð eða viking eins og þeir Japanir kalla það (hef ekki hugmynd hvers vegna þeir nota þetta orð) - þetta er sætt paradísarhlaðborð!!! Kökur, nammi, ís og súkkulaði - eins og maður getur í sig látið!!!

Pís off keik hugsuðum við Tuya í fyrstu og hlóðum gúmmelaðinu á diskana. Eftir fyrstu ferðirnar á viking- ið fór okkur að gruna að við gætum orðið saddar áður en tíminn rynni út.

Við gripum til þess ráðs að fá okkur te... því við vorum sann- færðar um að það myndi ýta undir meltinguna.

Að loknu dönnuðu te-sötrinu fórum við aðra ferð.
Svo aðra ferð.
Og enn aðra ferð.


Við höndluðum ísvélina eins og prós og bjuggum til glæsileg bananasplitt.

Súkkulaðigosbrunnurinn vakti augljóslega MIKLA lukku.

En - Þrátt fyrir mikinn metnað og vel hungraða maga varð það ljóst þegar fór að líða á síðari helming 90 mínútnanna að við myndum ekki hafa það.

Þegar rétt tæpur hálftími var eftir urðum við að gefast upp. Ógleðin sveif yfir okkur og sama hvað við reyndum að bíta litla bita, við gátum ekki komið meiru niður.

Í lokin voru bragðlaukarnir í svo miklu sjokki að við greindum ekki lengur muninn á kaffi og vatni!!! - Fyrir utan það að annað var heitt og hitt kalt.

Að 90 mínútunum liðnum gripum við um magann og drösluðumst út og á lestarstöðina.

Ég ligg nú afvelta hér uppi í rúmi og ætla mér ALDREI aftur að borða kökur, súkkulaði, ís né... neitt annað sætt!

Úffness!!!

06 nóvember, 2006

Blómavasi í óskilum

Greyið Kiguchi á heimavistinni minni :(

Hann er búinn að týna blómavasanum sínum. Eða jafnvel verra - kannski er búið að STELA blómavasanum hans???

Jiminn, ég vona að enginn sé svo óforskammaður að gera slíkt.

Þetta fær greinilega mikið á hann Kiguchi, hann er sko trobbúld verrí mötsj. Svo endilega hafið augun hjá ykkur.